18.10.2008 | 13:37
Húsgrunnur og heimska
Ég á tvöhundruð sjötíu og átta þúsund inni á banka. Mér finnst það fínt miðað við það að ég hef ekki stundað reglulega launaða vinni síðan í vor. Ég hef ávaxtað mína verðlausu peninga vel í þessari kreppu sýnist mér. Enda eyði ég ekki svo miklu. Ég lifi nefnilega á unnustu minni, svona í augnablikinu. Ó já, ég er mannleysa og skammast mín lítið fyrir það. Það eina sem ég kaupi er stöku humar eða brauðbiti og einstaka flaska af víni. Ég á enga byggingalóð sem ég þarf að skila. Enda mundi ég aldrei nenna að byggja. Ég man hvernig foreldrar mínir höfðu það þegar þau voru að skríða yfir þrítugt. Þau voru drullug upp fyrir haus að naglhreinsa spýtur, slá upp mótum eða að draga steypustyrktarjárn yfir moldahauga. Bara af því að þau gátu ekki fundið sér neitt skárra áhugamál en að byggja hús. Og stundum var ég nauðugur dreginn í grenjandi rigningu upp í húsgrunn á heimsenda og settur í það að rétta nagla eða raða spýtnabraki í hrúgur. Ég hataði það. Það truflaði mig frá lestri bóka og öðrum sérviskulegum áhugamálum sem átta ára börn eiga að hafa. Ég datt oft á hausinn í hina og þessa drullupolla. Ég steig oft á nagla. Og pissaði á buxnaskálmarnar því að ég var of skjálfhentur af kulda til þess að stýra bununni á vegg. Það er helvíti að byggja og ég verð bara svo þreyttur við tilhugsunina um að fólk fórni tíma og orku í svoleiðis vitleysu að ég er að hugsa um að fara á næsta bar til þess að jafna mig. Helvítis vitleysa að koma sér upp húsi með eigin höndum sem er stærra en það sem hægt er að gera á smíðavöllum!
Milljarða bakreikningur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.