20.10.2008 | 22:09
Við kertaljós
Það er svo dimmt hérna inni núna að ég sé varla verðandi frú Kreppu en ég veit að hún er hérna, ég finn af henni lyktina. Það er einhver gamall krúner að gaula fyrir okkur væri betra ef það væri af rispaðri plötu en ekki nýjum cd. Ég er með bókahrúgu fyrir framan mig og kerti ofan á einni þeirra og þetta ómissandi vínglas innan seilingar. Verðandi frú Kreppa er hætt að teikna, ég held að hún sé að horfa út um gluggann. Flest kvöld hérna eru eins. Við gerum alltaf það sama. Hvers vegna að brjóta út af vananum ef maður er góður í því að láta tímann líða? Á morgunn ætlum við að leiðast út snemma og ganga frá ferðinni til Reykjavíkur. Ég held að við verðum þar frá 7. nóvember í nokkra daga. en þangað til ætla ég að eyðileggja í mér augun við að lesa T. S. Elliot við kertaljós.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.