Ég fékk ekki kynfræðslu

Ég var aldrei skáti.  Þess vegna vissi ég ekkert um kynlíf þegar ég varð unglingur.  Og sennilega þess vegna vissi ég ekkert um getnaðarvarnir og varð því faðir tuttugu og tveggja ára.  Það var fyrir daga netsins og enginn möguleiki að leita sér þekkingar á getnaðarvörnum upp á eigin spýtur.  Ætla samt ekki að harma það að hafa orðið pabbi.  Á kjaftforan son sem ber litla virðingu fyrir mér og lætur mig heyra eitt og annað sem ég hefði aldrei látið út úr mér við föður minn.  Og það er eflaust þess vegna sem mér þykir svona vænt um son minn.  Hann er bara yngri útgáfan af hortuga mér.  Breskir skátar eiga því eftir að missa af mikilli gleði sem fylgir því að geta hangið með yngri útgáfunni af sjálfum sér.

mbl.is Skátar fá kynlífsráðgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vér mótmælum allir

Einhver svartsýnisseggurinn sem ég þekki og var að tala við í síma rétt áðan spáði því að um jól yrðu 9000 manns atvinnulausir.  Þessa spá sína byggði hann á viðtölum við atvinnurekendur sem allir væru við sama heygarðshornið, að sparka fólki heim og byggjust við hinu versta.  Jafnvel að þurfa sjálfir að standa í röð niður á Atvinnuleysistryggingastofnun (eða hvað hún heitir) með stimpilkort í hönd, takandi á móti  smá aurum sem varla duga til framfærslu.  Ég ætla að vona að þessi spá rætist samt ekki.  En ef svo er þá mæli ég með því að þessar níu þúsundir standi fyrir framan Alþingishúsið og mótmæli dag hvern.  Það ætti að hafa eitthvað að segja. 

mbl.is Rúmlega 3.700 á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggstríð við kött

Ég er vissum að þetta blóm bloggar mikið merkilegri og betri færslur en ég.  Það hefur eflaust mikið betra vald á stíl og tungumáli og getur opinberað fyrir lesendum sinn innri heim.  Hugsun sem eflaust er jafn djúp og tær og fjallavötn svo ég fái líkingar lánaðar frá öðru blómi.  Ef ég ætti kött þá mundi ég fá hann til þess að blogga.  Færslurnar gætu byrjað svona: eigandi minn sparkaði í mig af eintómri fúlmennsku.  Sennilega var hann í fýlu vegna þess að fólk heldur partí í athugasemdakerfinu mínu en í hans birtist bara einstaka innkaupalisti frá frúnni.  Helvítis fólið er nefnilega ekki skrifandi eða með húmor...

mbl.is Blómið bloggar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stúdent Kreppumaður

Svo mikil er virðing eldri kynslóða fyrir læknum að fólk þorir ekki að koma mínútu of seint en er þess í stað tilbúið að dúsa úti í bíl í sólahring til þess að styggja ekki doktorinn.  Einu sinni þótti það nefnilega fínt að vera læknir.  Og jafnvel bara að kunna að lesa eða vera stúdent.  Fyrir einhverjum áratugum hefði ég verið ávarpaður stúdent Kreppumaður af ókunnugum sem virðing fyrir hinni miklu menntun minni.  Og sú virðing hefði aukist að loknu háskólaprófi.  Reyndar er prófið mitt ekki skeinispappírs virði og ég get ekki ímyndað mér að það hafi fært mér einhverja virðingu að flagga því í gegnum tíðina?  ALdri komu undirmenn mínir á réttum tíma til vinnu, alltaf þessum tíu fimmtán mínútum of seint.  Hvað þá heldur að þeir hefðu lagt það á sig að bíða í bíl heila nótt af virðingu við mig til þess að koma á réttum tíma.  Nei, enginn ber virðing fyrir neinu í dag.  Hvorki yfirboðurum sínum, menntun eða stjórnamálamönnum eins og maður sér á þúsundum bloggsíðna út um allan heim.  Enginn ber virðingu fyrir vinnu eða hugsun annarra.  Nema ein kerling á níræðisaldri.

mbl.is Sjúkleg stundvísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvern hatarðu mest?

Það væri fróðlegt að vita það hver af milljarðamæringum okkar Íslendinga sé sá óvinsælasti?  Og hvort að þeir séu óvinsælli en Ólafur kóngur, Davíð keisari og Geir strengjabrúða?  Og hvers vegna?  Hvað er það sem fer mest í taugarnar af fólki við þá?  Ég þoli ekki síttaðaftan klippinguna hjá Jóni Á, finnst nefið á Davíð ljótt og hárgreiðsla Ólafs súrrealísk.  Hún haggast aldrei.  Ég var reyndar með mynd af Ólafi og Dorrit í eðlilegri líkamsstærð inni í stofu hjá mér í mörg ár eða alveg þangað til bróðir minn seldi hana fyrir hálfa milljón.  Það er það eina jákvæða við forsetan, bróðir minn hafði efni á rauðvíni í nokkra daga á eftir.  En að vilja fá fólk til þess að gera upp um það hver er óvinsælastur er sennilega eins og að biðja fólk um að kjósa hvor er verri bloggari, ég eða Stefán Fr.?  Allir kostirnir svo svo slæmir.

mbl.is Ást á milljarðamæringum kulnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við kertaljós

Það er svo dimmt hérna inni núna að ég sé varla verðandi frú Kreppu en ég veit að hún er hérna, ég finn af henni lyktina.  Það er einhver gamall krúner að gaula fyrir okkur væri betra ef það væri af rispaðri plötu en ekki nýjum cd.  Ég er með bókahrúgu fyrir framan mig og kerti ofan á einni þeirra og þetta ómissandi vínglas innan seilingar.  Verðandi frú Kreppa er hætt að teikna, ég held að hún sé að horfa út um gluggann.  Flest kvöld hérna eru eins.  Við gerum alltaf það sama.  Hvers vegna að brjóta út af vananum ef maður er góður í því að láta tímann líða?  Á morgunn ætlum við að leiðast út snemma og ganga frá ferðinni til Reykjavíkur.  Ég held að við verðum þar frá 7. nóvember í nokkra daga.  en þangað til ætla ég að eyðileggja í mér augun við að lesa T. S. Elliot við kertaljós.

Brenna öll gögn

Ég hélt að menn að gömlum sið færu með trúnaðarpappíra út i garð og kveiktu bara í hrúgunni.  Það gafst stjórnendum Þriðja ríkisins vel þegar hrun blasti við enda tókst þeim þannig að svíkja sagnfræðinga um ótrúlegt magn af upplýsingum og draga úr skaðanum og dómum sögunnar yfir sér.  Ef þeim hefði ekki tekist að brenna milljónir eftir milljónir af sönnunargögnum gegn sjálfum sér hefðu hundruð bóka til viðbóta um illsku Nasista verið skrifaðar.  Legg til að auðmenn og stjórnmálamenn á Íslandi laumist út í hauströkkrið og kveiki í viðkvæmum upplýsingum.  Það losar þá við nauðsynleg sönnunargögn sem annars kynnu að lenda í höndum óvandaðra fréttamann og verið birtir alþjóð, auk þess sem stór bál úti í fallegum görðum setja fallegan svip á Reykjavík, sérstaklega ef það færi nú að snjóa.

mbl.is Eyða trúnaðargögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öldungar flugust á

Þetta gæti nú verið frétt frá Íslandi.  Gamalmenni fljúgast á vegna landamerkinga.  Eru Íslendingasögurnar ekki uppfullar af svona sögum?  Aldraðar kerlingar senda þræla til drápa vegna skurða sem grafin var tveimur metrum of langt inn á land þeirra.  Eða vegna þess að rolla ranglaði upp á hól sem var þeirra.  Og vopnin svipuð, bitlaus sverð og pákur í stað ryðgaðrar skóflu eins og í þessari frétt.  Og auðvitað voru allir saklausir eins og kerlingin gólaði þegar hún var dregin á brott til þess að mæta örlögum sínum.  Ég veit ekki betur en Bergþóra á Bergþórshvoli hafi verið alsaklaus af öllu nema því að eiga þrjóska og morðóða syni?  Mér hefur alltaf þótt vænt um þann sið Íslendinga að rífast yfir landspildum.  Það eru líka einu verðmætin sem eru eftir í þessu landi.  Grjót og moldabörð og einstaka snævadrifinn hóll.  Og um að gera að vernda það með ofbeldi ef mikið liggur við.

mbl.is Eldri borgari dæmdur í hálfs árs fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingjabandalag

Nú er lag að leita til Írana sem eru vonsviknir eins og Íslendingar um hjálp.  Þeir eru eflaust aflögufærir um eitthvað sem við getum notað, þá það væri nú ekki nema kíló af auðguðu úraníum sem við getum þá veifað framan í Breta næst þegar þeir fara illa með okkur.  Hugsanlega gætu Íranar líka tekið að sér að verja land og þjóð?  Ég er alveg vissum að við gætum myndað sterkt aumingjabandalag með Írönum, að þeim er ávalt vegið úr öllum áttum en samt tekst þeim að komst hjá því að verða troðnir undir hæl óvinveittra þjóða.  Svo virðist líka vera að við Íslendingar eigum ekki upp á pallborðið með þjóðum Evrópu lengur.  Við þykjum ekki fínn pappír þar og fáir sækjast eftir því að vera í vinfengið við okkur.  Líti einhver í átt til Íslendings í dag er það í besta falli til þess að hrækja á hann, í því versta að vinna honum mein.  Þess vegna ættum við kannski að vefja utan um okkur slæðum og sjölum og handklæðum og dulbúa okkur þannig sem múhameðstrúarmenn.  Jafnvel bara að sækja um upptöku í Íran?  Ég held að það væri best?  

mbl.is Íran: Óréttlátt að fá ekki sæti í Öryggisráðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óreiðuþjóð

Gott að allir eru sammála um að taka lán.  Þá er bara að fylla út nokkur a4 eyðublöð og finna svo einhvern sem ábyrgðarmann?  Hver gæti það verið sem á þessum síðustu og verstu tímum er tilbúinn að skrifa uppá fyrir okkur?  Svona fljótt á litið þá eigum við ekki marga vini eftir og hvað þá nokkra það trausta að þeir vilja ábyrgjast óreiðuþjóð?  Varla fáum við sjálfsábyrgð og þá gegn hverju?  Gullinu okkar og gjaldeyrinum sem hefur verið fryst úti á þeim leiða stað Bretlandi?  Og hvað eru svona lán til langs tíma?  40 ár eins og fasteignalán eða bara 25?  Eða er þetta bara ofvaxin yfirdráttaheimild sem þarf að endurnýja á hverju ári?  Og með 20% vöxtum?  Það hefði verið betra að falsa bara dollara og evrur til þess að bjarga okkur út úr þessum ógöngum.  Við getum hvort eð er ekki skokkið lægra í niður í fen niðurlægingar.  

mbl.is Einhugur um að sækja um lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband